Vilborg fékk fálkaorðu

Vilborg Oddsdóttir, formaður EAPN á Íslandi og félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar fékk á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu frá for­seta Íslands, Guðna Th. Jó­hann­es­syni.  Hún var sæmd riddarakrossi fyr­ir fram­lag til sam­hjálp­ar og bar­áttu gegn fá­tækt í sam­fé­lag­inu.

Tólf Íslendingar fengu heiðursmerkið en þeir voru auk Vilborgar:

1. Al­bert Al­berts­son fyrr­ver­andi aðstoðarfor­stjóri Hita­veitu Suður­nesja, Reykja­nes­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag á vett­vangi jarðhita­nýt­ing­ar

2. Álfrún Gunn­laugs­dótt­ir rit­höf­und­ur og fyrr­ver­andi pró­fess­or, Seltjarn­ar­nesi, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskra bók­mennta og kennslu bók­mennta á há­skóla­stigi

3. Bryn­hild­ur Guðjóns­dótt­ir leik­kona, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskr­ar leik­list­ar

4. Gunn­ar V. Andrés­son ljós­mynd­ari, Mos­fells­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir störf á vett­vangi ís­lenska fjöl­miðla

5. Hall­dóra Björns­dótt­ir íþrótta­fræðing­ur, Mos­fells­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til heilsu­vernd­ar og lýðheilsu

6. Hauk­ur Ágústs­son fyrr­ver­andi skóla­stjóri, Ak­ur­eyri, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag á vett­vangi skóla­mála og fjar­kennslu

7. Lár­us Blön­dal for­seti Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands, Garðabæ, ridd­ara­kross fyr­ir störf í þágu íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar

8. Ólaf­ur Dýr­munds­son fyrr­ver­andi ráðunaut­ur, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir störf á vett­vangi ís­lensks land­búnaðar

9. Ólöf Nor­dal mynd­list­armaður, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskr­ar mynd­list­ar

10. Sig­fús Krist­ins­son tré­smíðameist­ari, Sel­fossi, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til at­vinnu­lífs og iðnmennta í heima­byggð

11. Sigþrúður Guðmunds­dótt­ir for­stöðukona Kvenna­at­hvarfs, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir störf að vel­ferð og ör­yggi kvenna

Vinnum gegn fátækt

Árið 2015 bjuggu um 5% Íslendinga, eða rúmlega sextán þúsund manns, við skort á efnislegum gæðum. Rauði þráðurinn hjá þeim sem bjuggu við fátækt er erfið staða á húsnæðismarkaði, slæmt heilsufar og að búa einn eða einn með börnum. Hver dagur er barátta fyrir fæði, klæðum og húsnæði.

EAPN á Íslandi eru regnhlífasamtök félaga sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi og voru stofnuð í upphafi árs 2011.

Samtökin eiga aðild að EAPN (European Anti Poverty Network) sem voru stofnuð árið 1990. Lykilatriði í baráttu EAPN er virk þátttaka fólks með reynslu af fátækt. Í þeim tilgangi starfa innan samtakanna grasrótarsamtökin Pepp á Íslandi sem samanstanda af fólki sem hefur sjálft upplifað fátækt og félagslega einangrun.

Aðildarfélögin eru Félag einstæðra foreldra, Hagsmunasamtök heimilanna, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Kærleiksþjónusta kirkjunnar, Samhjálp, Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra, Velferðarsjóður Suðurnesja og Öryrkjabandalag Íslands.

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að ætlunin sé að vinna úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna, leggja fram tillögur til úrbóta og fylgja þeim eftir. Börn sem búa við fátækt eru nefnd sérstaklega sem einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.

EAPN á Íslandi hefur óskað eftir að koma að vinnu við gerð úttektarinnar og tillagnanna þar sem mikil reynsla býr innan raða samtakanna. Við viljum líka hvetja til þess að á meðan beðið er eftir tillögunum verði gripið til þeirra ráða sem þegar liggja fyrir. Má þar nefna samræmdar reglur um lágmarksframfærslu eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, fjölgun félagslegra leiguíbúða, lækkun á greiðsluþaki sjúklinga, að grunnskólinn verði gjaldfrjáls í öllum sveitarfélögum og eflingu frjálsra félagasamtaka til að veita fátækum aukinn félagslegan stuðning.

Hugum að þeim sem búa við fátækt og félagslega einangrun því saman getum við tryggt öllum líf með reisn.
 
Laufey Ólafsdóttir

Höfundur er varaformaður EAPN á Íslandi og samhæfingarstjóri Pepp á Íslandi.