ÖBÍ höfðar mál gegn TR

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands hefur tekið ákvörðun um að höfða mál gegn Tryggingastofnun ríkisins vegna krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar, eða sk. sérstök framfærsluuppbót.

Með lögum árið 2017 var þessi bótaflokkur felldur niður hjá ellilífeyrisþegum og upphæð hans færð inn í bótaflokk sem heitir ellilífeyrir.  Með því var þessi skerðing afnumin hjá ellilífeyrisþegum.  Örorkulífeyrisþegar voru aftur á móti skildir eftir og fengu ekki þá ívilnun sem fólst í lögunum.

Breytingin var ellilífeyrisþegum verulega til hagsbóta en þar sem skerðingum öryrkja hefur ekki verið breyttt með sambærilegum hætti hafa örorkulífeyrisþegar orðið af umtalsverðum fjármunum þegar litið er til sambærilegra hópa.  Hjá mörgum þeirra getur skerðingin numið um 60.000 kr. á mánuði eða meira.

Eitt hæsta hlutfall fólks sem býr við fátækt á Íslandi er með örorkumat.  Því væri það mikilvægt skref í því að útrýma fátækt á Íslandi ef Alþingi myndi bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu, sbr. hvatningu stjórnar ÖBÍ þess efnis.

Öryrkjabandalag Íslands er eitt af aðildarfélögum EAPN á Íslandi.

sjáist nánar á vef ÖBÍ

 

Sjálfboðaliðar óskast!

Pepp á Íslandi, grasrótarheyfing EAPN á Íslandi, leitar að sjálfboðaliðum bæði fyrir reglulega þriðjudagshittinga samtakanna og út um allt land.
Á þriðjudagshittingunum koma Pepparar saman til að rjúfa félagslega einangrun, borða saman og halda fundi í baráttunni gegn fátækt.  Við tökum þátt í að berjast gegn matarsóun og fáum gefins ýmiskonar mat sem við eldum á staðnum (og gefum allt sem umfram er) og þess vegna vantar fólk sem er til í að aðstoða matráðinn okkar við matargerðina en aðallega þó við fráganginn eftir mat, annanhvern þriðjudag.
Að launum bjóðum við ókeypis máltíð og góðan félagsskap.
Best væri að fá nokkra sem skiptast á til að dreifa álagi.
Einnig vantar okkur sjálfboðaliða úr sem flestum sveitarfélögum.  Fólk sem þekkir fátækt á eigin skinni og er til í að vera með og leggja sína þekkingu og reynslu á vogarskálarnar og taka þátt í allskonar verkefnum með okkur í vetur. Í boði eru bæði stór verkefni og smá fyrir þá sem vilja og treysta sér.
Pepp á Íslandi eru grasrótarsamtök fólks sem vill berjast gegn fátækt. Okkur vantar fleiri sem glíma við fátækt til þátttöku sem og sjálfboðaliða úr röðum fólks sem hafa glímt við fátækt, fólk sem er reiðubúið að koma og taka virkan þátt í baráttunni, koma með sínar hugmyndir o.s.frv. en fyrst og fremst með því að kynna sér starf Pepp Ísland, samtaka fólks í fátækt og geta í framhaldinu verið virkir félagar og tekið þátt í þeim verkefnum á okkar vegum sem þeir vilja og geta tekið þátt í.
Allir eru velkomnir sama hver getan er.
Verkefnin geta verið allt frá því að lesa almennar fréttir og greinar og deila þeim sem okkur varðar, yfir í að fara á ráðstefnur erlendis. Næsti Pepphittingur verður þriðjudaginn 12. september á milli kl 19:00 og 22:00 og síðan á hálfsmánaðarfresti eftir það í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd.
Ef þú vilt vera með getur þú mætt á þriðjudagshitting og fengið að vita meira. Þú getur einnig bókað tíma hjá samhæfingarstjóra Pepp í s: 845 1040 (skrifstofan er í húsnæði Samhjálpar í Hlíðasmára 14 á þriðju hæð) eða sent tölvupóst með fyrirspurn á peppari@internet.is
Þín er þörf, vertu með