Tilnefningar til Fjölmiðlaverðlauna götunnar óskast!

Manst þú eftir framúrskarandi vandaðri og góðri fjölmiðlaumfjöllun um fátækt á Íslandi frá árinu 2018? Sendu okkur tilnefningar á peppiceland@gmail.com. Skilafrestur til 10. febrúar.

Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru verðlaun sem afhent eru fjölmiðlafólki fyrir framúrskarandi umfjöllun um fátækt á Íslandi. Verðlaunin eru veitt fyrir alls konar fjölmiðlaefni, úr sjónvarpi, útvarpi, af vefnum sem og í prentmiðlum (dagblöðum og tímaritum).

Verðlaunin eru haldin að fyrirmynd frá systursamtökum okkar í Austurríki og er markmið þeirra fyrst og fremst að stuðla að upplýstri og vandaðri fjölmiðlaumfjöllun um fátækt. Verðlaunin eru hvatning fyrir fjölmiðlafólk til þess að fjalla af fagmennsku og virðingu um málefni fátækra en þeim er einnig ætlað að byggja brýr milli fjölmiðla og fólks sem almennt hefur ekki dagskrárvald í samfélaginu.

Þann 22. febrúar mun Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, standa fyrir Fjölmiðlaverðlaunum götunnar í þriðja sinn. Athöfnin fer fram í húsakynnum Hjálpræðishersins í Reykjavík í Mjódd, frá kl. 14-16.

16826141_1242663285782428_2935232494978793128_o
Verðlaunahafar Fjölmiðlaverðlauna götunnar fyrir árið 2016 fengu “Salt í grautinn”.

„Fjölmiðlaverðlaun götunnar“ afhent í Austurríki

Þann 17. desember s.l. voru hin austurrísku fjölmiðlaverðlaun götunnar, „Journalismuspreis von unten“, afhent við hátíðlega athöfn í Vín. Það eru EAPN samtökin í Austurríki, Die Armutskonferenz, sem standa að verðlaununum og eru þau fyrirmynd Fjölmiðlaverðlauna götunnar, sem EAPN og Pepp á Íslandi hafa staðið fyrir undanfarin tvö ár.

Í Austurríki eru verðlaunin veitt í fjórum flokkum; fyrir vefmiðlun, prentmiðla, útvarp og sjónvarp. Eru tveir tilnefndir í hverjum flokki, en annar af þessum tveimur  hreppir „Hvíta drekann“ fyrir þann flokk. Hvíti drekinn er táknrænn í baráttunni gegn fátækt þar í landi og hefur verðlaunagripurinn, sem hannaður er af listamanni með reynslu af fátækt, fest sig í sessi sem táknmynd austurrísku verðlaunanna. Gripurinn er því nokkurs konar áminning til verðlaunahafa um mikilvægi vandaðrar blaðamennsku í baráttunni gegn fátækt og um leið um þá þýðingu sem störf fjölmiðlafólks hafa fyrir samfélagið.

 

“Journalismuspreis von unten” verðlaunin voru afhent fyrst árið 2010. Voru þau haldin í kjölfar vinnustofu sem samtökin stóðu að til að byggja brýr milli fjölmiðla og fólks með reynslu af fátækt. Þar vann fjölmiðlafólk, fólk í fátækt (pepparar) og fræðafólk saman að því að hanna leiðarvísi að því hvernig ætti að standa að fjölmiðlaumfjöllunum um fátækt og hvernig hægt væri að nálgast efnið á faglegan hátt og með virðingu fyrir viðfangsefninu. Verðlaunin hafa síðan verið afhent árlega og fer verðlaunaafhendingin fram síðasta mánudag fyrir jól.

Pepp Ísland mun núna í febrúar afhenda Fjölmiðlaverðlaun götunnar í þriðja sinn til þess fjölmiðlafólks sem vann bestu fjölmiðlaumfjallanir um fátækt á Íslandi á árinu 2018. Ákall verður sent út vegna tilnefninga á næstu dögum.

 

Verðlaunagripurinn „hvíti drekinn“
Vinningshafarnir með dómnefndinni

Félagsskapurinn stendur uppúr

Sigfús Kristjánsson skrifar um þátttöku sína í „capacity building” fundi á vegum EAPN samtakanna sem haldinn var í Vínarborg 27. – 29. september.

Það var óneitanlega nokkuð sifjulegur félagsskapur sem fór saman í bíl til Keflavíkurflugvallar aðfaranótt miðvikudagsins 26. september. Ferðinni var heitið til Vínar með stuttri millilendingu í London. Það var þó bjart og fallegt veður sem tók við okkur þegar við komum til Vínar um kaffileytið á miðvikudeginum. Vín er falleg borg og gaman að ganga um hana ekki síst í fallegu og hlýju haustveðri eins og við fengum að upplifa.

Árla daginn eftir var svo haldið á ráðstefnu og við þrjú frá Íslandi fórum hvert á sinn stað. Ég fór á eins konar námskeið eða smiðju um kosningabaráttu og hvernig hægt er að koma samfélagslegum málum sem varða fátækt og félagslega einangrun á dagskrá í aðdraganda kosninga. Eðlilega var nokkuð fjallað um væntanlegar kosningar til Evrópuþingsins. Dagurinn fór í fræðslu og hópastarf þar sem hver hópur kynnti svo sína vinnu. Þetta var frábær dagur, gagnlegur og fróðlegur. Félagsskapurinn stóð þó upp úr og var þetta frábært tækifæri til að hitta og eiga samfélag með vinum okkar frá öðrum evrópulöndum.

Á föstudeginum var stærra þing en þá komu allir saman og var umfjöllunarfefnið stefna samtakanna til frambúðar. Þar voru líflegar umræður og dálítið krefjandi. Ég segi krefjandi því það þarf mikla einbeitingu til að hlusta og taka þátt í samræðum á ensku með fólki sem hvert hefur sinn sérstaka hreim og stundum þurfti aðstoð túlka. Niðurstaðan úr umræðunum var svo ágætt skjal sem unnið verður með áfram. Seinni part dagsins voru kynningar á starfsemi í þrem löndum það voru Finnar, Portúgalar og svo við Íslendingar sem fengum að kynna okkar starf. Ég var svo heppinn að Laufey og Ásta Dís sáu um íslensku kynninguna og ég gat því fylgst með hinum löndunum sem var afar fróðlegt.

Á laugardagsmorgninum var svo aðalfundur þar sem kosið var um menn og málefni og þakkað fyrir góð störf. Þar fékk m.a. Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar viðurkenningu fyrir sitt frábæra framlag í þágu þeirra sem samtökin standa með.

Það sem stendur upp úr eftir þennan tíma er vinátta og félagsskapur við virkilega duglegt fólk sem hvert á sínum stað er að vinna við að útrýma fátækt og félagslegri einangrun. Það er fátt eins gaman og að fá að kynnast fólki sem hefur hugsjón og ástríðu fyrir því sem það gerir og fyrir það tækifæri þakka ég. Vonandi tekst okkur að nýta það nesti sem við fengum í ferðinni til að gera enn betur í okkar störfum hér heima.

Sigfús Kristjánsson