Vilborg fékk fálkaorðu

Vilborg Oddsdóttir, formaður EAPN á Íslandi og félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar fékk á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu frá for­seta Íslands, Guðna Th. Jó­hann­es­syni.  Hún var sæmd riddarakrossi fyr­ir fram­lag til sam­hjálp­ar og bar­áttu gegn fá­tækt í sam­fé­lag­inu.

Tólf Íslendingar fengu heiðursmerkið en þeir voru auk Vilborgar:

1. Al­bert Al­berts­son fyrr­ver­andi aðstoðarfor­stjóri Hita­veitu Suður­nesja, Reykja­nes­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag á vett­vangi jarðhita­nýt­ing­ar

2. Álfrún Gunn­laugs­dótt­ir rit­höf­und­ur og fyrr­ver­andi pró­fess­or, Seltjarn­ar­nesi, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskra bók­mennta og kennslu bók­mennta á há­skóla­stigi

3. Bryn­hild­ur Guðjóns­dótt­ir leik­kona, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskr­ar leik­list­ar

4. Gunn­ar V. Andrés­son ljós­mynd­ari, Mos­fells­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir störf á vett­vangi ís­lenska fjöl­miðla

5. Hall­dóra Björns­dótt­ir íþrótta­fræðing­ur, Mos­fells­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til heilsu­vernd­ar og lýðheilsu

6. Hauk­ur Ágústs­son fyrr­ver­andi skóla­stjóri, Ak­ur­eyri, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag á vett­vangi skóla­mála og fjar­kennslu

7. Lár­us Blön­dal for­seti Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands, Garðabæ, ridd­ara­kross fyr­ir störf í þágu íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar

8. Ólaf­ur Dýr­munds­son fyrr­ver­andi ráðunaut­ur, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir störf á vett­vangi ís­lensks land­búnaðar

9. Ólöf Nor­dal mynd­list­armaður, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskr­ar mynd­list­ar

10. Sig­fús Krist­ins­son tré­smíðameist­ari, Sel­fossi, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til at­vinnu­lífs og iðnmennta í heima­byggð

11. Sigþrúður Guðmunds­dótt­ir for­stöðukona Kvenna­at­hvarfs, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir störf að vel­ferð og ör­yggi kvenna

Lítið fyrir fátæka í fjárlagafrumvarpi 2018

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í dag.  Margir geta glaðst yfir auknum fjárveitingum í aðdraganda jólanna.  Við fyrstu yfirsýn virðast þeir fátækustu í samfélaginu ekki geta sagt það sama þótt heildarafgangur ríkissjóðs fyrir árið 2018 er áætlaður 35 milljarðar króna.

Frumvarpið á að endurspegla fyrstu áherslur nýrrar ríkisstjórnar „sem miða að því að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og treysta til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði.“ skv. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Öryrkjar, langveikir og atvinnulausir eru þeir sem líklegastir eru til að búa við fátækt skv. mælingu á skort á efnislegum gæðum.  Árið 2015 bjuggu 23% þeirra sem skilgreina sig sem öryrkjar við skort á efnislegum gæðum og 2,5% ellilífeyrisþega.  Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að bætur öryrkja munu dragast áfram aftur úr bótum aldraðra með 1,1 milljarða króna aukningu til aldraðra vegna hækkun frítekjumarks.  Ekkert sambærilegt er að sjá til öryrkja.  Hækkun framlaga skýrist af fjölgun öryrkja og lögbundinni verðlagshækkun bóta. Meðaltekjur ellilífeyrisþega voru fyrir væntanlega breytingu rúmar 384.000 krónur á mánuði á meðan meðaltekjur öryrkja voru tæpar 333.000 krónur á mánuði, eða sem svarar mismun upp á 612 þúsund krónum yfir árið.

Lægstu bæturnar í samfélaginu eru bætur atvinnulausra og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.  Ekkert er að finna í kynningu fjármálaráðherra um hækkun bóta atvinnulausra né aukna fjárveitingu til sveitarfélaga til að hækka fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem er lágmarksframfærslan í landinu.

Fleiri börn en fullorðnir búa við fátækt á Íslandi.  Hærri stuðningur við barnafjölskyldur hefur verið eitt af baráttumálum þeirra sem láta sig fátækt varða.  ASÍ benti á fyrir fjárlög ársins 2016 að skattbyrði þeirra sem lægstar tekjurnar hafa og einstæðra foreldra hefði aukist verulega frá 1998 m.a. vegna lækkandi barnabóta.  Ástæðan væri að barnabætur hefðu ekki haldið í við þróun launa né verðlags, skerðingarhlutföll vegna tekna hefðu aukist allra síðustu ár og frá og með tekjuárinu 2010 voru allar barnabætur tekjutengdar, líka fyrir 7 ára og yngri.  Því hefur verið lögð áhersla á að snúa þessari þróun við, m.a. í tillögum Velferðarvaktarinnar gegn fátækt.  Útgjöld til barnabóta hækka um 900 milljónir króna, úr 10,5 milljarðar króna úr 9,6 milljörðum króna.

Í mennta- og menningarmálum má sjá aukningu útgjalda til ýmissa þátta en lítið sem ekkert sem mun nýtast þeim sem berjast við fátækt.  Þannig eru engin áform um að lögfesta gjaldfrjáls námsgögn og skólamáltíðir grunnskólabarna, né að tryggja fátækum aðgengi að menntun og listum líkt og gert er víða í nágrannalöndum okkar.

Í skattamálum ber að fagna að fjármagnstekjuskattur hækkar úr 20% í 22%.  Ekkert kemur fram um hækkun persónuafsláttar en sú aðgerð myndi nýtast tekjulægri einstaklingum best.  Ein meginástæða þess að tekjulægstu hóparnir hafa borið sífellt hærri skattbyrði er að persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launaþróun skv. greiningu ASÍ.

Í tillögum sem lagðar hafa verið fram um aðgerðir í þágu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun hefur verið lögð áhersla á mikilvægi frjálsra félagasamtaka.  Oft eru hjálparsamtök síðasta úrræði fólks þegar allt annað hefur brugðist.  Ekkert var að finna í kynningu fjármálaráðherra á fjárlagafrumvarpi ársins 2018 um aukinn stuðning við frjáls félagasamtök, hvorki  með skattaívilnunum eða auknum beinum fjárstuðningi hins opinbera.

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram á morgun, fimmtudaginn 15. desember og er hægt að fylgjast með henni á vef Alþingis.

Hver er framtíð norræna velferðarmódelsins?

Reglulega hefur verið lýst yfir dauða norræna velferðarmódelsins.  Það lifir þó ágætis lífi á öllum Norðurlöndunum þó áskoranirnar eru fjölmargar líkt og kom fram í máli Árna Páls Árnasonar á fundi á vegum Norðurlönd í fókus þann 5. desember sl. í Norræna húsinu.

Norræna ráðherranefndin fékk Árna Pál, fyrrum félags- og tryggingamálaráðherra Íslands, til að greina áskoranir sem norræna velferðarmódelið stendur frammi fyrir og leggja fram tillögur til norrænu félagsmálaráðherranna um hvernig væri hægt að nýta norræna samvinnu til að mæta þeim.

Norræna velferðarmódelið hefur einkennst af sterku miðlægu þjónustuframboði af hálfu hins opinbera, almennum réttindum fyrir alla, sterku samstarfi á milli aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera og að sveitarfélög gegni lykilhlutverki í að sinna velferðarþjónustu.

Í máli Árna Páls kom fram að vinnan hefði leitt í ljós að meðal helstu áskorana sem velferðarmódelið stendur frammi fyrir væri fjölgun ungs fólks sem væri ekki í námi eða vinnu, fátækt meðal vinnandi fólks og mikil fjölgun fólks af erlendum uppruna.  Þarfir fyrir þjónustu hefðu verið að breytast, hjá fötluðu fólki og vegna mikillar fjölgunar aldraðra.  Mun meiri krafa væri um einstaklingsbundna þjónustu og hefði NPA valdið straumhvörfum í nálgun á þjónustu.

Sígilt verkefni sem öll Norðurlöndin stæðu frammi fyrir væri svo húsnæðisvandi þeirra efnaminni.

Öll þessi úrlausnarefni ættu sameiginlegt, að mati Árna Páls, að fólk lifir lengur og vill fá persónulegri þjónustu. Langur lífaldur og hraðar tæknibreytingar leiddu til að orsök atvinnuleysis tengdust meira skorti á þekkingu en störfum.  Geðheilbrigði færi hrakandi á sama tíma og einsemd og félagsleg einangrun væri að aukast.  Miklar framfarir í læknavísindum hefðu leitt til að fólk lifði lengur með langvarandi heilsufarsvanda og skerta vinnugetu. Það sama mætti segja um lífsstílssjúkdóma.

Árni Páll lagði áherslu á að tækifæri væru til að efla velferðarþjónustu til framtíðar.  Miklir fjármunir væru fjárfestir í velferð víða í heiminum og það væri stöðugt verið að leita nýrra leiða til að veita betri þjónustu.  Má þar nefna meiri áherslu á ábyrgð hvers og eins á eigin heilsu, tæknilausnir, deilihagkerfið, nýjar leiðir til að fjármagna velferðarlausnir og að mun fleiri væru að láta til sín taka í gegnum frjáls félagasamtök.

Þá skipti  miklu máli að lausnir byggðu á gagnreyndum rannsóknum og samráði við notendur.

Að loknu erindi Árna Páls Árnasonar tók hann þátt í pallborði ásamt Guðnýju Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við HÍ og Regínu Ástvaldsdóttur, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Stefnt er að því að Árni Páll skili norrænu félagsmálaráðherrunum tillögum sínum í júní 2018.

Hægt er að sjá upptöku af fundinum á vef Norræna hússins.

ÖBÍ verðlaunar RÚV, TravAble og Hlín Magnúsdóttir

Öryrkjabandalag Íslands veitti RÚV, TravAble og Hlín Magnúsdóttir árleg hvatningarverðlaun sín þann 4. desember síðastliðinn í tengslum við Alþjóðadag fatlaðs fólks.

RÚV fékk verðlaun í flokknum umfjöllun/kynningar vegna þáttarins „Með okkar augum“ en þátturinn hefur verið sýndur á besta áhorfstíma hjá sjónvarpsstöðinni.  

 

TravAble hlaut verðlaun í flokki fyrirtækja/stofnana fyrir smáforrit með upplýsingum um aðgengi, hvort sem um er að ræða opinberar stofnanir, kaffihús eða veitingastaði.

Hlín Magnúsdóttir fékk verðlaun í flokki einstaklinga fyrir brennandi áhuga og frumkvæði á fjölbreyttum kennsluaðferðum en hún heldur úti fésbókarsíðunni „Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka“.  Námsefnið þar hentar öllum börnum, en sérstaklega börnum með sérþarfir s.s. einstaklingum á einhverfurófi, með ADHD og aðrar raskanir.

 

Verðlaunin voru afhent af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, en tilgangur verðlaunanna er að hvetja áfram og vekja athygli á þeim sem hafa stuðlað að einu samfélagi fyrir alla með jákvæðni að leiðarljósi.

 

Aukinn ójöfnuður frá 2013

Ójöfnuður hefur verið að aukast hægt á síðustu þremur árum eftir því sem fjármagnstekjur byrjuð að hækka á nýjan leik frá bankahruni. Þetta kom fram í viðtali við Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands á Rás 2 í morgun.

Stefán og Arnaldur Sölvi Kristjánsson hafa stundið miklar rannsóknir á ójöfnuði og gefið afraksturinn út í nýrri bók sem heitir Ójöfnuður á Íslandi sem kom út í dag.

Á árunum milli stríða ríkti hér mikill ójöfnuður, líkt og flestum löndum Evrópu. Eftir seinni heimsstyrjöldina tók hins vegar við nær 50 ára tímabil jöfnuðar tekna. Stefán sagði að eftir að Ísland fékk sjálfstæði ríkti hér sennilega mesta jafnaðarsamfélag jarðarinnar í 50 ár ásamt hinum Norðurlöndunum. Sennilega var ívið meiri jöfnuður á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

Eftir því sem aukið frelsi varð á fjármagnsmörkuðum, hlutabréfamarkaðir komu til sögunnar og aðgangur að lánsfé varð meiri jókst ójöfnuðurinn frá 1995 og náði hámarki á árunum fyrir hrun.

Katrín vill berjast gegn fátækt

Í nýjum stjórnarsáttmála er fjallað um þá sem búa við fátækt og félagslega einangrun en ný ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur hefur tekið við stjórn landsins.  Í stjórnarsáttmálanum segir: „Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir. Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.“

Áherslan á baráttu gegn fátækt og ekki hvað síst fátækt barna er mjög mikilvæg.  Í skýrslu Barnaheillar Child Poverty and Social Exclusion in Europe frá 2014 kemur fram að 16,6% barna á Íslandi væru í hættu á að búa við fátækt eða félagslega einangrun.  Fátækt getur haft mikil áhrif á tækifæri barnsins.  Barnið líður ekki aðeins skort þegar kemur að mat, fatnaði og húsnæði, heldur getur ekki tekið virkan þátt í frístundum með félögum sínum.  Fátæk börn eru einnig síður líkleg til að öðlast þá hæfni og getu sem þarf til að komast út úr fátækt sem fullorðið fólk.  Þær tillögur sem oftast eru nefndar til hjálpa börnum sem búa við fátækt er aðgengileg og góð menntun og að börnunum og fjölskyldum þeirra sé tryggt gott og öruggt húsnæði.

Mikil vinna hefur verið unnin á undanförnum árum í að greina stöðu þeirra sem búa við fátækt og fjöldi góðra tillagna liggja þegar fyrir.

Má þar á meðal nefna skýrsluna Farsæld – Barátta gegn fátækt og tillögur Velferðarvaktarinnar um aðgerðir gegn fátækt.

Því ætti ekki að taka langan tíma að taka saman tillögur til úrbóta og fylgja þeim eftir.

Stjórnvöld hvött til að útrýma fátækt

Ný ríkisstjórn fær á sig áskorun um að útrýma fátækt á Íslandi á kjörtímabilinu 2017-2021 og byrja á því strax við undirbúning fjárlagafrumvarps fyrir árið 2018 í grein Kristínar Ólafsdóttur, upplýsingafulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar í Fréttablaðinu í morgun

Þar bendir hún á að á hverju ári leitar fólk til Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem það á erfitt með að ná endum saman vegna lágra tekna og mikils húsnæðiskostnaðar.  „Þegar fólk á erfitt með að mæta þeirri grunnþörf að hafa þak yfir höfuðið hefur það áhrif á allt annað í lífinu.  Í félagsvísum Hagstofunnar frá 2015 segir að 23% öryrkja og 20,3% einstæðra foreldra búi við skort á efnislegum gæðum en það þýðir til dæmis að hafa ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni, að hafa ekki efni á kkjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag og hafa hvorki efni á heimasíma né farsíma eða að hafa ekki efni á sjónvarpstæki, þvottavél, bíl eða að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.“

Hún hvetur alla til að axla ábyrð á samfélaginu sem við búum okkar, og ákveða saman hver ábyrgð ríkis og sveitarfélaga eigi að vera í stuðningsnetinu fyrir hvern og einn.  Grein sinni lýkur hún með því að lýsa yfir vilja Hjálparstarfs kirkjunnar til að taka þátt í þverfaglegu starfi til að útrýma fátækt og hvatningu til allra þeirra sem búa við fátækt að gera það líka.

Undir þetta er sannarlega hægt að taka

7% vinnandi fólks býr við fátækt

Fátækt meðal vinnandi fólks hefur aukist í Evrópu.  Á Íslandi er talið að 6,9% vinnandi fólks búi við fátækt.  Þar er aðallega um að ræða ungt fólk sem vinnur fulla vinnu en hefur ekki í sig eða á.  Því til viðbótar er um að ræða einstæða foreldra, leigjendur, fólk af erlendum uppruna og geðfatlaðir sem fást við fátækt.  Þetta kom fram á fjölmennum fundi EAPN á Íslandi og Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd þann 16. nóvember á Grand hótel.

Á fundinum fluttu Hanna Björnsdóttir, félagsráðgjafi og skýrsluhöfundur um lágmarksframfærslu, Guðný Björk Eydal, prófessor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og Mikael Torfason, rithöfundur erindi.

Pepparar sögðu frá niðurstöðum ráðstefnu um fátækt meðal vinnandi fólks sem haldin var á vegum móðursamtaka EAPN í Brussel.

Tillögur sem bent var á til að takast á við fátækt voru:

  • Að móta heildstæða aðgerðaáætlun til að vinna bug á fátækt.
  • Móta heildstæða húsnæðisstefnu.
  • Skilgreina grunnframfærsluviðmið.
  • Draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.
  • Samræma og samhæfa trygginga-, félagslega og skattkerfið.
  • Vinna með fátækt á grundvelli gæða fremur en skorts og meta virkni í stað skerðingar.
  • One-stop-shop.

Fundarstjóri var Ásta Dís Guðjónsdóttir, samhæfingarstjóri Peppara og stjórnarmaður í EAPN.

90% vaxtabóta fara til efnameiri heimila

Vaxtabætur hafa nýst síst þeim efnaminnstu á húsnæðismarkaðnum samkvæmt úttekt sem Íbúðalánasjóður hefur unnið. Í fyrra greiddi ríkið 4,6 milljarðar króna í formi vaxtabóta, sem jafngildir fimmtungs alls hins opinbera húsnæðisstuðnings.

Kerfið styður einnig illa við fyrstu kaupendur en um 70% vaxtabóta fara nú til fólks eldra en 36 ára.  Á sínum tíma þegar vaxtabótakerfinu var komið á var yfirlýstur tilgangur þess að styðja tekjulægri hópa til kaupa á húsnæði.  Þannig áttu vaxtabæturnar að renna til þeirra sem greiddu hlutfallslega mikið af tekjum sínum í vexti af íbúðalánum.

Í stað þess hefur kerfið þróast þannig að þeir sem hafa hærri tekjur og geta þar að leiðandi skuldsett sig meira hafa fengið meira af vaxtabótunum.  Sambærileg gagnrýni hefur komið fram á vaxtabætur t.d. í Bandaríkjunum.  Má þar nefna grein NYTimes How Homeownership became the Engine of American inequality þar sem bent var á að stuðningur hins opinbera vegna greiðslu vaxta hefði leitt til aukins ójöfnuðar í samfélaginu.

Nánari um málið.

Frétt á vef Íbúðalánasjóðs

Frétt á vef Morgunblaðsins