Fjölmiðlaverðlaun götunnar

Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru afhent árlega til fjölmiðlafólks sem fjallar um fátækt á Íslandi af kostgæfni og virðingu af Pepp Ísland – samtökum fólks í fátækt.

Verðlaunað er fyrir umfjöllun öllum flokkum fjölmiðla: í sjónvarpi, útvarpi, prentmiðlum og vefmiðlum, hvort sem um er að ræða fréttir, viðtöl, greinar, stuttmyndir eða annað efni. Verðlaunin eru táknræns eðalis og eru afhent þeim einstaklingi, eða einstaklingum, sem vinnur umfjöllunina, en ekki þeim miðli sem hún birtist í.

Pepp Ísland er grasrótarhreyfing fólks með reynslu af fátækt og er hluti af samtökunum EAPN á Íslandi. Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru að fyrirmynd systursamtaka í Austurríki og eru samstarfsverkefni svipaðra hreyfinga í nokkrum Evrópuríkjum.

Markmiðið er að efla faglega og metnaðarfulla fjölmiðlaumfjöllun um fátækt sem samtökin telja að skili sér í auknum skilningi samfélagsins á þeim aðstæðum sem þeir efnaminni búa við, enda er aukinn skilningur eina leiðin til úrbóta. Einnig er jákvæð orðræða mikilvægur liður í valdeflingu þeirra sem búa við fátækt og því nauðsynlegt að sporna gegn niðrandi umfjöllunum með því að verðlauna það sem vel er gert.

Verðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 2017.

2018

Mikael Torfason, RÚV fyrir útvarpsþættina “Fátækt fólk” sem fjölluðu um stöðu ólíkra hópa fólks sem býr við fátækt eða á barmi fátæktar út frá sjónarhóli fólksins sjálfs.  Mikael fær líka viðurkenningu fyrir að fylgja málinu vel eftir og vera virkur í opinberri umræðu um fátækt á Íslandi og vera öflugur talsmaður fyrir málstaðinn.

Gabríel Benjamín, Stundin fyrir blaðagreinina “Hrædd við skilningsleysi og kerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar”.  Greinin er yfirgripsmikil umfjöllun um málefni öryrkja og starfsgetumat þar sem flókið málefni er sett fram  upplýsandi og heildstæð hátt.

Alda Lóa Leifsdóttir, Fréttatímanum fær viðurkenningu annað árið röð fyrir grein sína “Vonleysið, að vera einskis virði í ofbeldisfullu kerfi”.  Í greininni eru tekin viðtöl við hóp öryrkja um starfsgetumatið eftir áhorf á myndina „I, Daniel Blake“ og umræðan sett í samhengi við persónur og söguþráð myndarinnar.   Alda Lóa fær einnig viðurkenningu fyrir að leiða saman Pepp og Bíó Paradís til þess að gera þessa umfjöllun mögulega, en úr varð gott samstarf sem skapaði þarfa umræðu um málefnið.

2017

Alda Lóa Leifsdóttir, Fréttatímanum hlaut heiðursverðlaunin Fjölmiðlaverðlaun götunnar fyrir ljósmyndir í umfjöllunum Fréttatímans um fátækt á árinu 2016 ásamt því að fá viðurkenningu fyrir greinina „Vildi að ég gæti boðið börnunum í mat”.

Áslaug Karen Jónsdóttir, Stundinni, hlaut verðlaun fyrir „Fátæku börnin” fyrir bestu blaðagreinina.

Kristjana Guðbrandsdóttir, Fréttablaðið, hlaut verðlaun fyrir bestu fyrirsögnina, „Fátækt deyr þegar draumar fá líf”

Gunnar Smári Egilsson, Fréttatíminn, hlaut verðlaun fyrir greinina „Efnahagslegt hrun ungs fólks”.